Þróun námsefnis

Meðal þeirra þátta sem SamSTEM hópurinn var sérstaklega áhugasamur um að kanna í framhaldsskólaheimsóknunum var hver staða námsefnis í námi og kennslu væri. Almennt var niðurstaðan sú að þótt sumt efni þætti ágætt er víða pottur brotinn og mikill áhugi á bættu efni.

Hópurinn hefur greint þrjár meginleiðir til að vinna á þessu:

  1. að finna til efni sem þegar er til (t.a.m. efni sem kennarar hafa unnið í hjáverkum og notað án þess að gefa sérstaklega út) og birta miðlægt,
  2. að vinna nýtt efni í fögum sem auðvelt er að laga efni af háskólastigi að framhaldsskólastiginu, og
  3. að finna erlent efni til þýðingar.

Skjáskot af SamSTEM Edbook tilvikinu.Sá valkostur að vinna nýtt efni alveg frá grunni þykir óraunhæfur innan núverandi kerfis og í raun ókostur að styrkir til útgáfu námsefnis einskorðist við nýsamið efni í stað þýðinga.

Frá árinu 2017 hefur hópur unnið að þróun vefviðmótsins Edbook og efnis til birtingar á því. Nýtt tilvik viðmótsins hefur verið sett upp á samstem.github.io og þangað fært efni sem hentað getur á framhaldsskólastigi.