Fyrsta málþing SamSTEM verkefnisins fjallaði um undirbúning nemenda við upphaf háskólanáms.
Dagskrá
9:00-9:05: Anna Helga Jónsdóttir, dósent við Verkfræði og náttúruvísindasvið HÍ:
Um SamSTEM.
9:05-10:00: María Jónasdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ:
Áhrif styttingar námstíma stúdentsprófsbrauta á inntak brautanna og undirbúning nemenda fyrir nám á háskólastigi.
10:00-10:25: Kaffihlé. Boðið verður upp á léttar veitingar.
10:25-11:10: Gylfi Zoëga, prófessor við Félagsvísindasvið HÍ:
Áhrif styttingar framhaldsnáms á frammistöðu nýnema í Háskóla Íslands.
11:15-12:00: Freyja Hreinsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið HÍ:
Greining á villum í stærðfræðigreiningarprófi.
Fundarstjóri er Bjarnheiður Kristinsdóttir, lektor við Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið, sem mun stýra umræðum á málstofunni.
Ágrip
Áhrif styttingar framhaldsnáms á frammistöðu nýnema í Háskóla Íslands.
María Jónasdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Leiðbeinendur: Elsa Eiríksdóttir og Guðrún Ragnarsdóttir, dósentar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Árið 2014 ákváðu stjórnvöld að stytta allar stúdentsprófsbrautir íslenskra framhaldskóla úr fjórum árum í þrjú. Það kom í hlut framhaldskólanna sjálfra að ákveða hvernig styttingin skildi útfærð innan þeirra marka sem aðalnámskrá frá árinu 2011 veitti þeim. Fyrri námskrá innihélt nákvæmar áfangalýsingar og tilgreindi ákveðinn fjölda eininga fyrir hverja námsgrein sem öllum framhaldsskólum var gert að fylgja. Aðalnámskrá frá 2012 er hins vegar mun opnari og telur aðeins upp fimm námsgreinar og námsgreinaflokka þvert á stúdentsprófsbrautir. Hingað til hefur ekki verið til yfirlit yfir það hvernig styttingin fór fram og áhrif hennar á inntak stúdentsprófsbrautanna er að miklu leyti óþekkt.
Í erindinu verða kynntar niðurstöður úr grein um áhrifum styttri námstíma til stúdentsprófs innan Háskóla Íslands. Tekin voru viðtöl við reynda háskólakennara um þeirra upplifun á undirbúningi nemenda fyrir nám á háskólastigi í kjölfar styttingarinnar og hvort einhverjar aðgerðir væru fyrirhugaðar á þeirra sviðum til að takast á við breyttan undirbúning nemenda. Niðurstöðurnar benda til þess að styttingin hafi haft áhrif á undirbúning nemenda fyrir nám í tungumálum og raungreinum, greinum sem krefjast beins undirbúnings úr framhaldsskóla. Í erindinu verður sérstaklega fjallað um áhrifin innan Verk- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands (VON). Þá verður einnig sagt frá niðurstöðum úr grein í vinnslu sem m.a. er unnin úr sömu viðtölum, um sýn og reynslu háskólakennara og -nemenda af styttingunni. Hluti af niðurstöðum í þeirri grein eru þær að háskólakennarar af VON höfðu margir áhyggjur af auknum mun á því hvernig stúdentsprófsbrautir úr ólíkum framhaldsskólum undirbyggju nemendur fyrir nám á sviðinu, í kjölfar þess að námstíminn var styttur.
Í erindinu verður einnig gerð grein fyrir fyrstu niðurstöðum úr rannsókn á áhrifum styttingarinnar á inntak núgildandi stúdentsprófsbrauta. Upplýsingar um samþykktar námsbrautir framhaldsskólanna á vef Menntamálastofunnar voru notaðar til að útbúa yfirlit yfir núgildandi námsleiðir til stúdentsprófs. Inntak brautanna var kortlagt og fjöldi eininga í einstaka greinaflokkum taldar. Sérstaklega verður fjallað um inntak stúdentsprófsbrauta í náttúruvísindum.
Áhrif styttingar framhaldsnáms á frammistöðu nýnema í Háskóla Íslands.
Gylfi Zoëga, prófessor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.
Meðhöfundar: Tinna Laufey Ásgeirsdóttir prófessor við Félagsvísindasvið HÍ og Gísli Gylfason doktorsnemi.
Við nýtum okkur nýlegar breytingar á íslenska menntakerfinu sem tilraun til að skoða áhrif fjölda ára í framhaldsskóla á árangur nemenda á fyrsta ári í háskólanámi. Mikill breytileiki í aldri þátttakenda innan hópanna sem stunduðu þriggja- og fjögurra ára háskólanám gerir okkur kleift að aðgreina áhrif styttri framhaldsskólanáms frá áhrifum aldurs þegar háskólanám hefst. Niðurstöður benda til að stytting framhaldsskólanáms, í þrjú ár í stað fjögurra, leiði til þess að háskólanemar á fyrsta ári ljúki færri einingum, fái lægri meðaleinkunn í námskeiðum sem þau ljúka og séu líklegri til að hætta í námi. Niðurstöður benda einnig til þess að áhrifin skýrist að hluta til af aldri við innritun í háskóla. Þetta á sérstaklega við um konur á meðan karlar verða fyrir neikvæðum áhrifum, jafnvel þó leiðrétt sé fyrir aldrei þeirra.
Greining á villum í stærðfræðigreiningarprófi
Freyja Hreinsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Á hverju ári eru 200 – 300 nemendur skráðir í námskeiðið STÆ104G Stærðfræðigreining I við Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ, en það er skylda á 1. misseri í verkfræði, tölvunarfræði og á fleiri námsleiðum. Efni námskeiðs er nátengt fyrra námi nemenda úr framhaldsskólum.
Til að grennslast fyrir um áhrif undirbúnings nemenda fékk ég leyfi til að skoða og villugreina úrlausnir nemenda á prófi í Stærðfræðigreiningu I haustið 2022. Sú skoðun leiddi í ljós margvíslegar villur, allt frá villum sem tengjast innihaldi áfanga í byrjun framhaldsskóla að villum í námsefni stærðfræðigreiningarnámskeiðsins.